Komin í skóla eina ferðina enn!

Monday, October 31, 2005

Snúa í gang!

Svona eins og pabbi gerði við villís-jeppann forðum. Með sveif. Nenni engu eftir helgina. Þá á ég hér við námslega séð. Æi.

Ætlaði mér stóra hluti í dag. Eitthvað urðu þeir smáir. Agnarsmáir. Ákvað að fara í heimsókn til Söru með ljósin mín tvö og naut þar setu við eldhúsborðið í góðum félagsskap. Ekki að ræða það að fara heim og læra. Over my...

Verð nú líklegast að blása lífi í lesturinn á morgun. Er það ekki málið? Á morgun segir sá...ja, hreinlega bara lati. Finnst ég stundum bara búin með þennan skólapakka, en er jafnframt alveg mjög ánægð með að hafa drifið mig. Bara átak í sjálfu sér.

Hvað um það.

Fórum öll fjögur í IKEA á sunnudaginn. Uppgötvaði þar, mér til alsælu, að ég er orðin IKEA södd. Reyndar hef ég ákaflega takmarkaðan áhuga á kaupum af öllum toga. Er mettuð af dóti og allskyns glingri/húsgögnum/gardínum. Dásamleg tilfinning. Hélt ég ætti þetta ekki til. Sá fyrir mér að verða ævina út að bera heim flatpakkningar frá þeim sænsku. En nú er bara öldin eitthvað að breytast. Önnur. Kem líklega ekki einum bolla til viðbótar inn í Rimann smáa.

Eru þetta ellimerki?

Thursday, October 27, 2005

Slaki

Þar kom að því. Slaki í náminu. Nú hefur maður tíma til að vera ekki með samviskubit í allar áttir, sama hvað maður gerir: "Ætti að vera læra!" "Ætti að vera heima með mínum!" "Ætti að gefa mér tíma fyrir vinina!"

Anyway, slaki og það er fínt.

Fer í Kauphöllina á morgun í "vísindaferð" með Maestro, sem er félag meistaranema í Viðskipta- og hagfræðideild við Háskóla Íslands. Kitta mun halda þar stutt erindi ásamt tveimur öðrum og síðan verður, vona ég, eitthvað í fljótandi formi! það verður gaman að sjá nýja vinnustaðinn hennar Kittu og átta sig þannig betur á hennar lífi sem PR gellan. Ég þekki jú aðrar hliðar kerlu mun betur, s.s. eins og troðandi fyllingu í risa-kalkún á röndóttum náttbuxum, eða syngjandi "bí-bí-bí-bí!" Ætli ég verði ekki að kalla hana A.Kristínu á morgun?

Síðan er það matarboð á laugardagskvöld. Eitthvað í gangi allar helgar. Þannig á það líka að vera. Við Sigurjón höldum boðið og sjáum um aðalréttinn. Sigurjón Atli og Jóney, Sigga og Valdi og Dísa og Jóngeir mæta í uppsveitir (Grafarvoginn) og skipta forrétti, eftirrétti og víni á milli sín. Sniðugt fyrirkomulag. Einn galli þó á gjöf Njarðar. Við eigum ekki stell fyrir átta. Því er ljóst að ég þarf í Te og kaffi til að kaupa í Denby-stellið, sem nota bene er hætt að framleiða. Loforðið sem ég fékk árið 2000 þegar ég keypti stellið upphaflega, um að það yrði á markaðinum næstu 50 árin eða svo, var greinilega innantómt. Frábært! Þetta þýðir bara eitt:

Við þurfum að gifta okkur, Sigurjón!

Wednesday, October 19, 2005

Sé í toppinn

...á blessuðu fjallinu sem blasir við mér og hefur gert undanfarnar vikur. Næsta vika er massív hvað skil á verkefnum af ýmsum toga varðar. Svona til að gefa innsýn í líf mitt þá lítur áætlunin svona út af hálfu Viðskipta- og hagfræðideildar HÍ:

25. október: skil á hálftilraun og spurningalista í Þáttum í aðferðafræði - 15%
26. október: próf í Inngangi að rekstri og stjórnun - 30%
28. október: skil á ritlingi (lítil ritgerð, sambærilegt við jeppa og jeppling!) í Samskiptum á vinnumarkaði - 10%
31. október: Skil á ritgerð í Mannauðsstjórnun - 30%

Er hálfnuð með aðferðafræðina, nánast í flúkti í lesefni við það sem kennarinn hefur núþegar farið yfir í Inngangi að rekstri og stjórnun, ekkert byrjuð á ritlingnum en jafnframt búin með ritgerðina í mannauðsstjórnun. Ákvað að setja punktinn niður einhversstaðar í gær og hætta þessu. Maður getur jú haldið endalaust áfram í ritgerðavinnu. Frekar spurning um að hætta, -stramma sig af.

En næsta mál hjá mér er þá að ná að haka út innviði ofangreinds lista. Efni ritlingsins í Samskiptum á vinnumarkaði er: Gefum okkur tvær atvinnugreinar A og B þar sem rekstur A er mun áhættusamari -- ytri áföll algengari -- en rekstur B. Segið frá því hvernig þið mynduð sníða hvatalaunakerfi að greinunum tveimur, þ.e.a.s. hvernig yrði hvatalaunakerfi A að mati ykkar frábrugðið hvatalaunakerfi B?

Komdu endilega með hugmyndir. Já og Hildur, gott að fá söguna frá þér um sálfræðilega samninginn. Ótrúlegt hvað fólk getur feilað stórt í samskiptum við aðra. Stefnan hjá mér er að læra af eigin mistökum og annarra, til að losna við að þurfa bæta á minn lista yfir mistök sem vafalítið er til staðar, -þó maður telji sig vera í ágætis málum. Svona listalega séð!

Jæja, farin.

Sunday, October 09, 2005

Í herbúðum

Ef einhver dirfist að tjá sig um ágæta sjónvarpsdagskrá sem stöðvar hafa fram að færa á kvöldin, þá mun sá hinn sami fá fræga gínuhendi í fésið frá mér. Talk to the hand bara. Veit ekki lengur neitt og neitt í þjóðmálum, horfi ekki á fréttir, sé enga þætti, sit bara við tölvuskjá og pikka inn ritgerðir, ritlinga og brátt hálftilraun. Í aðferðafræði. Fikk, eins og Kitta myndi segja það (eitthvað skoskt dæmi í stað fokk því það er svo dónalegt).

Reyni þó, enn sem komið er, að halda mig við frítíma á milli kl.16 og 20 á virkum dögum, því þá er gæðatími með kindum tveim. Bríetin og Þengill verða ekki sett undir mottu svo auðveldlega. Neibb. Frekar sit ég við á kvöldin og lem á lyklaborðið. Í raun ótrúlegt hvað maður hefur vannýtt kvöldin til ýmissa verka undanfarið. Alltaf komin upp í sófa eftir átta og föst fyrir framan sjónvarpið í stað þess að gera eitthvað. Eins og t.d. að mála gluggana hvíta. Sigurjón! Þetta er ekki skot á þig:)

Jæja, komin með grind að ritgerðinni minni í mannauðsstjórnun sem fjallar um sálfræðilega samninginn. Mjög áhugavert efni og af nægu að taka þar. Allir þekkja sögur, annað hvort af sjálfum sér eða öðrum, þar sem ótrúleg klúður af hálfu vinnuveitenda haf kostað svekkelsi og kannski síðar uppsögn af hálfu starfsmanns. Mannlegi þátturinn er stór-stærri-stærstur.

Sendu mér, lesandi góður, endilega dæmi um slíka sögu með því að ýta á comment hér fyrir neðan. Mistök eru til að læra af þeim, er ekki svo?!

Sunday, October 02, 2005

Afmæli

Kerla á afmæli í dag. Í tilefni dagsins hringdi pabbi og söng. Hann sagðist jafnframt ætla að senda blóm seinna í dag. Ég lagði til að hann sleppti þeirri peningaeyðslu og biði mér frekar í cappuchino kaffibolla á kaffihúsi næst þegar við hittumst. Skömmu síðar hringd'ann aftur og var þá Gunnur búin að semja leiru í tilefni dagsins og óskarinnar um kaffið. Var leiran send í tölvupósti suður yfir heiðar og er sendingin eftirfarandi (enn einn tölvupósturinn sem birtist fyrir augu almennings!!!):

Sigurlaug Elsa
2. október 2005

Til hamingju með daginn!


Mannauð sinn hún meta kann,
manni og börnum stýrir.
Á pabba setur blómabann,
betur það útskýrir:
„Kaffibolla kann að meta,
kaupa hann þú ættir geta.”

Pabbi sinn og Gunnur
_________

Takk, takk. Sigurjón gerði reynar athugasemd við orðið "stýrir!" ;)