Komin í skóla eina ferðina enn!

Thursday, January 19, 2006

Fluga á vegg - móðir í forstofu

Sótti börnin tvö í vistun rétt fyrir fjögur í dag. Hefðbundið. Varð vitni að eftirfarandi í forstofu leikskólans:

Drengur, líklega fjögurra til fimm ára gamall, var einn frammi í forstofu að dandalast. Prófaði að fara inn í þurrkskápinn og eitt og annað. Ég leiddi hugann að því hvað hann væri að gera frammi eftirlitslaus. Allnokkru seinna, líklega um 2 mínútum eða svo, kom ung kona askvaðandi innan af miðju leikskólans. Líklega móðir drengsins. Samtal þeirra var á þessa leið:

Móðir: Hvað, -ert'ekki kominn í fötinn drengur?
Drengurinn var þá liggjandi undir setubekk.
Móðir: Ertu liggjandi í gólfinu? Viltu gjöra svo vel og standa upp. Hvað á þetta að þýða?
Drengur: ...(sagði held ég ekki mikið)
Móðir: Viltu drífa þig. Amma þín bíður úti í bíl. Hvar er Henson gallinn þinn?
Drengur: Hjá pabba.
Móðir: Hjá pabba þínum! Hvurslags er þetta eiginlega. Hélt áfram rausi og ég var orðin miður mín.

Síðan fer ég út með mína unga. Drengurinn kemur síðan hlaupandi út í stígvélum einum auka"klæða" og hleypur í rólu og fer að róla. Móðirin kemur askvaðandi.

Móðir: Þú átt að hlýða mér! Ég sagði þér að fara ekki út nema með húfu. Heyrirðu ekki hálfa heyrn? Hvernig er þetta með þig?

Með það fóru þau upp í bíl og þar með heyrðust ekki fleiri orð úr munni þessarar móður. Vá. Mér er sama þó hún slysist inn á þessa síðu og sjái þessi skrif. Hún ætti bara að hugsa sinn gang. Þessi drengur átti samúð mína alla. Ég hugsaði með mér að líklega væri lausn fyrir hann að mæta í leikskólann á morgnana. Laus undan niðrandi svívirðingum og stanlausu pexi frá móður sinni. Skamm bara!