Komin í skóla eina ferðina enn!

Friday, December 23, 2005

Niðurtalning

Fórum í þrjú hús í dag. Fyrsta húsið var í eigu bróður míns og konu hans. Fengum þar kaffi og smákökur að hætti Jóa Fel. Bragðgott, ekki vantaði það. Síðan rúlluðum við fjölskyldan til langömmu barnanna, ömmu Sigurjóns. Þar var sonurinn sýndur hratt sökum þreytu og ekki smásmuga til afslöppunar. Annað foreldrið á vaktinni, stanslaust. Vafalítið allir fegnir þegar þeirri heimsókn lauk, þó alltaf sé gaman að sækja Ólöfu heim, bakkelsi útúr dyrum og endalaus kaffiáfylling. Þaðan var haldið beina leið upp í Staðarhverfi í skötuveislu til Þorfinns og Söru. Með smá stoppi í Skeifunni til afhendingar pakka. Hræðileg umferð um Hagkaupsplanið og það eitt var meira en nóg fyrir mig. Úff. Mikið var ég fegin að hafa ekki átt leið í búð í dag. Ekki fyrir nokkurn mann að finna stæði, síðan engar körfur, allir fyrir öllum o.s.frv. Þá er nú betra að vera heima og raða skóm í skóhillur í forstofu.

Sigurjón borðaði kæsta - kæstari - kæstasta skötu. Vonandi verður hægt að kyssa hann uppúr sex á morgun.

Thursday, December 22, 2005

Búin

Í prófum. Er það vel. Ótrúlega gott bara. Slúttuðum með samsæti á Sögu að loknu síðasta prófinu á mánudaginn var. Þeir "hörðustu" í bransanum fóru síðan niður á Vegamót að borða. Ferlega góður matur! Fékk mér Tagliano (eða eitthvað álíka nafn) með hvítlauksristuðum humarhölum. Jeremías. Það var eins gott og það hljómar. Skemmtilegt samsæti með samnemendum, sem voru allir sammála því að gera betur í grúppuformun, þ.e. að kynnast betur og reyna að mynda einhverja stemmningu innan hópsins, en til þessa hefur hún ekki verið mikil.

Af jólahaldi þetta árið er allt sæmilegt að frétta. Ætlaði að gera ís í kvöld en verð að fresta því til morguns. Er ákveðin í því að jólin komi bara þegar klukkan slær sex á laugardag, hvort sem ég verð búin að þrífa eður ei. Gera ís eður ei. Geymslunni verður ekki breytt. Frekar en fyrri daginn. Jólin hljóta líka að koma í geymslur, sem eru fullar af drasli.

Thursday, December 08, 2005

Heimilisskipti

Af því að ég nenni alls ekki að læra fyrir prófið á morgun, þá er best að tékka á póstinum mínum...hugsaði ég í morgun. Gerði það og sjá! Fleiri tilboð um heimilisskipti kominn inn í inboxið mitt. Snilldin ein.

Við fórum nefnilega í sumarfrí síðasta sumar til Danmerkur, í gegnum heimilisskiptasíðu sem við erum meðlimir að. Fengum frábært einbýlishús á Jótlandi í skiptum fyrir okkar 3ja herbergja íbúð hér í Reykjavík. Dásamlegur garður, risatstórt trampólín og sæla ein, - fyrir utan rigningu megnið af ferðinni. Fjölskyldan sem skipti við okkur mætti okkur brún og sælleg eftir Íslandsferðina á Kastrup að tæpum tveimur vikum liðnum. En í alla staði frábærlega vel heppnað dæmi.

Það sem mér finnst svo skemmtilegt við þetta er að maður getur fengið tilboð um "swap" hvaðanæva úr heiminum. T.d. í morgun var það fjölskylda frá Tel Aviv, Ísrael, sem óskaði eftir skiptum. Við vorum sammála um það, hjónaleysin, að þangað ætlum við ekki á næstunni, þannig að ég afþakkaði annars gott boð nú rétt í þessu. Síðan fengum við beiðni um skipti um páskana frá fólki í Bath á Englandi. Ákváðum að afþakka það. Verð líklega í einhverjum skólagír þá.

En rúsínan í pylsuendandum...fengum snilldartilboð nú í morgun um skipti á einbýlishúsi við Florence (45 kílómetrar frá) með einkasundlaug, heitum potti, slatta af herbergjum og öðru eins af baðherbergjum. Allt fyrir okkar 82 fermetra. Er því sýnd hratt í dag yfir þessu og hreinlega verð að selja Sigurjóni hugmyndina. Sigrún systir er jafnæst yfir þessu og ætlar AÐ SJÁLFSÖGÐU með, ef af verður. Enda erum við síams.

Jæja, best að lesa um Evrópusambandið. Það tengist jú Ítalíu...

Wednesday, December 07, 2005

Prófatíð

Mikil dásemd að ljúka tímasókn nú síðasta miðvikudag. Fyrirlestrar algjörlega orðnir fyrir mér í áætlanagerð varðandi lestur fyrir próf. Ekki svossum sérstök tilhlökkun fólgin í því að fara í próf, en rétt eins og ófrísk kona á síðasta meðgöngumánuði...þá vil ég bara losna. Sama hversu hörmuleg lífsreynsla það verður. Bara klára.

Fyrsta próf hófst á laugardaginn var. Heimapróf í Stjórnun og forystu. Fengum prófið klukkan níu um morguninn og skiluðum á mánudaginn var, í síðasta lagi kl. 15:00. Ekki góð hugmynd að próffyrirkomulagi. Stanslaus vinna. Enginn lúxus þar á ferð. Gekk ágætlega, vona ég.

Nú er ég að lesa fyrir próf á föstudaginn í Samskiptum á vinnumarkaði. Algjörlega ekki í stuði fyrir það, en öllum sama líklegast. Fæ engin samúðarskeyti í póstkassann í það minnsta!

Mesti horrorinn verður þó í næstu viku. Próf í Þáttum í aðferðafræði og síðan í Inngangi að rekstri og stjórnun. Páfagaukslærdómur fyrir bæði fögin. Ég sem hélt að slík próf væru ekki í meistaranámi, - en greinilega er framhaldsskólastemmningin enn að gera sig.

Mánudagurinn 19. desember verður síðasti dagurinn í prófatíð, en þá tek ég próf í Mannauðsstjórnun. Helgin fyrir það próf verður vafalítið andlega erfið. Að halda sig við lestur og nánast komin jól. Ekki gaman. Ótrúlegt að við séum þó ekki í prófi á síðasta prófdegi við HÍ. Nei, hann er 21. desember. Aumingja þeir sem þurfa að sitja undir slíkum ósköpum.
______________

Það má enginn...ég endurtek ENGINN, segja mér hvað er gaman í jólastússi niðr'í bæ. Það má enginn segja mér hvað hann er búinn að baka mikið. Né kaupa allar jólagjafirnar. Hvað þá að laga til og skrifa jólakortin.