Komin í skóla eina ferðina enn!

Thursday, September 22, 2005

Farvegur

Já, líklega má segja að nýja lífið sé að ná einhverju jafnvægi. Finnst þó Þengillinn minn eitthvað minni en lítill þegar hann er sóttur og kemur heim eftir pössun allan daginn. Skinnalingur ekki orðinn eins árs. En hann er samt hetja. Þegar réttur í fang dagmóður á morgnana þá lætur hann sig einhvern veginn hafa það. Er ekkert "thrilled" en harkar af sér og vinkar mömmu. Hildur dagmóðir er ákaflega hlý við hann og það hjálpar í kreppunni sem mæður finna vafalítið allar fyrir á þessu afhendingar-augnabliki.

Að sitja heima við borðstofuborðið og læra á meðan aðrir fjölskyldumeðlimir eru að heiman er að komast í vana.

Er búin að koma á fót leshópi í einu faginu í skólanum, -mannauðsstjórnun. Bókin sem notast er við er ólesanleg og því varð að bregða á eitthvað ráð. Kræst. Ég fer nú ekki að taka upp á því að falla á meistarastigi. Nei. Ekki má. Þar af leiðandi þarf kerla að harka af sér, líklega eitt kvöld í viku, og halda út í myrkrið á vit skólafélaga til að ræða starfsmannahald, starfsmannastefnu, þróun, kennismiði...og hvað þetta heitir allt saman. Amm, það verður vonandi bara gaman. Svona þegar maður verður kominn á staðinn, í það minnsta.

Jæja, ætla að klára ritlinginn minn í Samskiptum á vinnumarkaði. Nenni ekki að hafa þetta hangandi yfir mér. Á reyndar ekki að skila honum fyrr en í október. En, það verður nóg annað þá! Gamla seig er bara í skynsemiskasti.

Over and out.

Wednesday, September 14, 2005

Bókhlaðan

Fór þangað í fyrradag. Fann gamlar dagblaðsgreinar frá 1977 um verkfall opinberra starfsmanna, skrollaði í forláta filmuvél sem maður sér bara í bíómyndum og las gamla Mogga. Snilldar-apparat. Hvar ég sat þarna í lokuðu herbergi sem kvikmyndastjarna birtist þá ekki Anna gamla frá Syðra-Hvarfi á skjánum. Myndir frá réttum heima, síðan þetta fyrir 28 árum! Reyndi að prenta hana út fyrir Kittu, enda um ömmu hennar að ræða, en án árangurs. Ekkert nema svartnættið. Jæja. Það verður að hafa það. Sótti síðan Stjórnartíðindi í "lögfræði"-hillurnar og fletti upp lögum frá '77. Heimildasöfnun fyrir ritling (ritgerð sem ekki nær fullri stærð). Efnið: Opinberir starfsmenn eiga ekki að hafa verkfallsrétt. Hvað finnst þér?

Thursday, September 08, 2005

Á fullu gasi

...já og þyrfti auka "power" til dagsverka. Allt breytt. Skólinn hafinn. Ekki einu sinni tími til að blogga. Neibb. Þrátt fyrir nýja huggulega sófann sem mættur er inn á stofugólf þá skal á hörðum borðstofustól setið. Eftir skóla. Við Hannes Hafstein (borðstofuborðið). Að lesa. Fram að barnasækelsi. Og síðan eftir átta þegar smáfólk er lagst til hvílu. Á að lesa 232 blaðsíður fyrir þriðjudaginn í einu faginu. Auðvitað á fag-ensku. Olræt. En síðan eru það greinarnar 18 sem Gylfi henti inn á Ugluna (nemendavefinn) í dag auk kafla í aðferðafræði. Að ógleymdri tveggja blaðsíðna samantekt á stjórnunartengdu efni svo og framsögu varðandi efnið. Já. Á föstudaginn, takk fyrir. Ætli ég geti fengið hluta afnotagjaldanna felldan niður í vetur?! Mun ekki horfa á sjónvarp.

En gaman er það.