Komin í skóla eina ferðina enn!

Monday, November 21, 2005

Betra er blogg að skrifa...

...en ritling, eins og máltækið segir. Einungis tvö verkefni eftir þessa önnina og þá, kviss búmm, próf. Frumlestur fyrir öll próf, rétt eins og í menntaskóla. Fussum svei. Gekk á vegg varðandi námsefnið fyrir rúmri viku. Nenni hreinlega ekki meiru. Er búin að sitja við tölvuskjáinn í kvöld til að krafsa úr innviðum heilans eitthvað vitrænt um "liðsvinnu" í ritlinginn sem skila á næsta föstudag. Frábært. Hvar gengur hún og hvar ekki. Af hverju? Mjög áhugavert efni, en kerla samt tóm. Náði þó að hamra inn ellefu hundruð orð. Hvaðan þau komu veit enginn. Skal ljúk'onum á morgun. Skal. Ætlaði að vera búin með hann 17. nóvember. Frestunarárátta er fallegt orð!

Thursday, November 17, 2005

Að byggja eða breyta

Já, íbúðin fulllítil fyrir fjögurra manna fjölskyldu. 89 fermetrar með geymslu, flott stærð og frábær staðsetning en við Sigurjón sýnd hratt og fjölskyldan orðin fjórir.

Í stað þess að byggja við, enda sá möguleiki ekki inni í myndinni, þá var brugðið á það ráð að hugsa rýmið upp á nýtt. Svossum ekkert ný hugmynd, hvorki á þessu heimili né öðrum. Svissuðum við því herbergjum eða öllu heldur fluttum Bríetina yfir í okkar herbergi og fylltum í stað barnaherbergið af amerísku rúmi. Þengill fær síðan helmings afnot af "verelsi" ásamt systur þegar hann verður tveggja ára og flytur þá rúmið sitt yfir í meyjarsvítu. Mun hentugra fyrir margra hluta sakir. Hjónaherbergið á kyrrlátasta staðnum, en barnaherbergið ofan í stofunni. Því má ætla að svefn heimsljósa verði mun betri í kjölfarið og sætaferðum ljúki máske yfir í risarúm.

Tja, hvur veit!

Wednesday, November 16, 2005

Að hafa eða ekki hafa samviskubit

Einn daginn þegar ég sótti Bríeti í leikskólann fór starfsmaður leikskólans með mér fram í forstofu til að sýna mér, við lítinn fögnuð starfsmanns og brátt enn minni fögnuð minn, að foreldrar stúlku á leikskólanum höfðu tekið vettlinga Bríetar heim í misgripum og merkt þá stórum stöfum með túss yfir alla vettlingana. Ekki með nafni Bríetar þó! Skömminni skárra hefði það nú verið. Nei. Upphafsstafirnir voru af öðrum toga en okkar heimilis. Merking sem hefði sómt sér vel á frystihússtígvélum, en tæplega lúffum smáfrúar. Hvað með það, aumingja starfsmaðurinn hóstaði þessu upp og baðst afsökunar á verknaði viðkomandi foreldra og sagðist mjög leið yfir þessu. Ekki hvarflaði að mér að skjóta sendiboðann, enda tiltölulega friðelskandi manneskja.

Fór heim. Þoldi ekki ný-merkingu og gat ekki hjá því komist að finnast þessi framkoma foreldrana önnur en ég hefði sjálf haft í frammi. Ég hefði farið og keypt nýja vettlinga með það sama, í stað þess að skila bara spjölluðum vettlingum Bríetarbarns til leikskólastarfsmanna og láta þá um skítverkin. Merkilegt.

Nema hvað. Á foreldrafundi viku síðar ákvað ég að láta ekki bjóða mér að sitja uppi með þetta mál, enda hafði það grafið sig inn í sálartetur mitt. Rétt eins og þegar maður lendir í því að á mann er keyrt. Alltaf tjón fyrir mann. Blásaklausan. Deildarstjórinn fékk ljúfmennis, en þó ákveðnisræðu, frá mér hvar ég sagðist ekki vera dús við þetta mál. Þrátt fyrir ákaflega penar merkingar af minni hálfu á lúffunum rauðu þá taldi ég þetta tæplega vera eitthvað sem ég ætti bara að kyngja si svona. Deildarstjórinn var sammála og harmaði málið í heild. Ekki við leikskólann að sakast, enda var það aldrei atriðið. Nema hvað, -stjórinn sagðist ætla að taka málið í sínar hendur.

Í dag þegar ég mætti í leikskólann að sækja Bríetina þá rétti "sendiboðinn" mér nýjar lúffur. Hárauðar sem hinar, þó af öðrum toga, og sagði að leikskólakonur hefðu óskað eftir því við foreldra frystishússmerkinga að þetta yrði lausn mála. Með rauðelsi í höndum mælti kerla við starfsmann; "ég neita að vera með samviskubit yfir þessu!"

Og þar við situr. Rétt skal vera rétt.

Vafalítið eru foreldrar í Rimahverfinu sem hata herfumóður, en látum svo vera. Réttlætið náði fram að ganga. En líklega reyni ég að merkja lúffur á augljósari máta í framtíðinnni, -svo mikið lærði kerla!