Komin í skóla eina ferðina enn!

Wednesday, November 16, 2005

Að hafa eða ekki hafa samviskubit

Einn daginn þegar ég sótti Bríeti í leikskólann fór starfsmaður leikskólans með mér fram í forstofu til að sýna mér, við lítinn fögnuð starfsmanns og brátt enn minni fögnuð minn, að foreldrar stúlku á leikskólanum höfðu tekið vettlinga Bríetar heim í misgripum og merkt þá stórum stöfum með túss yfir alla vettlingana. Ekki með nafni Bríetar þó! Skömminni skárra hefði það nú verið. Nei. Upphafsstafirnir voru af öðrum toga en okkar heimilis. Merking sem hefði sómt sér vel á frystihússtígvélum, en tæplega lúffum smáfrúar. Hvað með það, aumingja starfsmaðurinn hóstaði þessu upp og baðst afsökunar á verknaði viðkomandi foreldra og sagðist mjög leið yfir þessu. Ekki hvarflaði að mér að skjóta sendiboðann, enda tiltölulega friðelskandi manneskja.

Fór heim. Þoldi ekki ný-merkingu og gat ekki hjá því komist að finnast þessi framkoma foreldrana önnur en ég hefði sjálf haft í frammi. Ég hefði farið og keypt nýja vettlinga með það sama, í stað þess að skila bara spjölluðum vettlingum Bríetarbarns til leikskólastarfsmanna og láta þá um skítverkin. Merkilegt.

Nema hvað. Á foreldrafundi viku síðar ákvað ég að láta ekki bjóða mér að sitja uppi með þetta mál, enda hafði það grafið sig inn í sálartetur mitt. Rétt eins og þegar maður lendir í því að á mann er keyrt. Alltaf tjón fyrir mann. Blásaklausan. Deildarstjórinn fékk ljúfmennis, en þó ákveðnisræðu, frá mér hvar ég sagðist ekki vera dús við þetta mál. Þrátt fyrir ákaflega penar merkingar af minni hálfu á lúffunum rauðu þá taldi ég þetta tæplega vera eitthvað sem ég ætti bara að kyngja si svona. Deildarstjórinn var sammála og harmaði málið í heild. Ekki við leikskólann að sakast, enda var það aldrei atriðið. Nema hvað, -stjórinn sagðist ætla að taka málið í sínar hendur.

Í dag þegar ég mætti í leikskólann að sækja Bríetina þá rétti "sendiboðinn" mér nýjar lúffur. Hárauðar sem hinar, þó af öðrum toga, og sagði að leikskólakonur hefðu óskað eftir því við foreldra frystishússmerkinga að þetta yrði lausn mála. Með rauðelsi í höndum mælti kerla við starfsmann; "ég neita að vera með samviskubit yfir þessu!"

Og þar við situr. Rétt skal vera rétt.

Vafalítið eru foreldrar í Rimahverfinu sem hata herfumóður, en látum svo vera. Réttlætið náði fram að ganga. En líklega reyni ég að merkja lúffur á augljósari máta í framtíðinnni, -svo mikið lærði kerla!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home