Komin í skóla eina ferðina enn!

Wednesday, August 31, 2005

Netleysi

"Sigurjón! Mér líður eins og ég hafi krafsað mig undanfarna daga um sanda Sahara án vatnssopa." Eitthvað á þessa leið var setning mín til sambýlingsins, unnusta og tölvunarfræðingsins í dag þegar netið var LOKSINS tengt á ný á heimilinu. Ég fékk að drekka. Þannig séð. Ah.

Einn af kostunum við að komast á netið á ný er sá að nú get ég séð hvort komnar eru frekari upplýsingar um blessað námið mitt á nemendasvæði HÍ. Jú, mikið rétt. Gylfi búinn að setja langþráð skipulag námskeiða hans inn á Ugluna (nemendavefurinn). Gott hjá karli. Búin að bíða eftir þessu í einhverjar vikur. Takk.

Fór annars á fund með meistaranemum við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (Vaðlaheiðarvegavinnuverkfæra...) á mánudaginn var. Fullur salur af fólki. Húmor í kennurum, kaffi, sódavatn, kleinur og kex í kaffihléi og allt orðið mun smartara en ég minnist frá fyrra námi í HÍ. Innritunargjöldin mín fóru í kexið. Eða límmiðana sem voru utan um vatnsflöskur. Háskólavatn, fullt af visku auk sóda. Leist vel á mig. Ætla að reyna að taka þátt í háskólasamfélaginu í vetur, eins og við vorum ítrekuð hvött til að gera á þessum fundi. Nú þegar er búið að boða oss á Megastónleika um næstu helgi. Veit nú ekki með það, en eitt er þó víst. Skólinn hefst á morgun!

0 Comments:

Post a Comment

<< Home