Komin í skóla eina ferðina enn!

Sunday, October 09, 2005

Í herbúðum

Ef einhver dirfist að tjá sig um ágæta sjónvarpsdagskrá sem stöðvar hafa fram að færa á kvöldin, þá mun sá hinn sami fá fræga gínuhendi í fésið frá mér. Talk to the hand bara. Veit ekki lengur neitt og neitt í þjóðmálum, horfi ekki á fréttir, sé enga þætti, sit bara við tölvuskjá og pikka inn ritgerðir, ritlinga og brátt hálftilraun. Í aðferðafræði. Fikk, eins og Kitta myndi segja það (eitthvað skoskt dæmi í stað fokk því það er svo dónalegt).

Reyni þó, enn sem komið er, að halda mig við frítíma á milli kl.16 og 20 á virkum dögum, því þá er gæðatími með kindum tveim. Bríetin og Þengill verða ekki sett undir mottu svo auðveldlega. Neibb. Frekar sit ég við á kvöldin og lem á lyklaborðið. Í raun ótrúlegt hvað maður hefur vannýtt kvöldin til ýmissa verka undanfarið. Alltaf komin upp í sófa eftir átta og föst fyrir framan sjónvarpið í stað þess að gera eitthvað. Eins og t.d. að mála gluggana hvíta. Sigurjón! Þetta er ekki skot á þig:)

Jæja, komin með grind að ritgerðinni minni í mannauðsstjórnun sem fjallar um sálfræðilega samninginn. Mjög áhugavert efni og af nægu að taka þar. Allir þekkja sögur, annað hvort af sjálfum sér eða öðrum, þar sem ótrúleg klúður af hálfu vinnuveitenda haf kostað svekkelsi og kannski síðar uppsögn af hálfu starfsmanns. Mannlegi þátturinn er stór-stærri-stærstur.

Sendu mér, lesandi góður, endilega dæmi um slíka sögu með því að ýta á comment hér fyrir neðan. Mistök eru til að læra af þeim, er ekki svo?!

2 Comments:

  • Blessuð og sæl Elsa!

    Vissi ekki að þú værir farin að blogga utan barnaheims... Gott mál það!

    Vitanlega á ég sögu í farteskinu um klúður af hálfu vinnuveitanda... í þessu tilfelli reyndar starfsmannastjóra í stóru fyrirtæki í Reykjavík.

    Ég var sumarstarfsmaður og hafði lesið kjarasamninginn samviskusamlega. Sá þar að ég átti rétt á hækkun um einn launaflokk sökum þess að ég var komin eitthvað áleiðis í háskólanámi mínu. Þessi eini launaflokkur samsvaraði 2-3 þúsund krónum ef ég man rétt. Ekki há upphæð það en skipti þó máli fyrir mig, blankan háskólastúdentinn. Auk þess sem rétt skal vera rétt!

    Sannfærð um rétt minn hélt ég því galvösk á fund starfsmannastjórans til að ræða málið. Mér algjörlega að óvörum brást hann hinn versti við, þráttaði við mig um réttindi mín og sagði við mig setningu sem ég mun seint gleyma:

    "Hildur, þú verður að skilja það að fyrirtæki reyna alltaf að borga starfsfólki sínu eins lág laun og þau komast af með!"

    Ekki man ég hvort ég fékk mitt í gegn... en þessi orð starfsmannastjórans man ég.

    Get ekki sagt að ég hafi haft mikla samúð þegar ég frétti nokkrum árum síðar að sami einstaklingur hefði verið hnepptur í fangelsi fyrir fjárdrátt frá þessu sama fyrirtæki.

    Gangi þér vel með ritgerðina. Eða á ég að segja ritgerðirnar?

    Bestu kveðjur frá Noregi,
    -Hildur Björk

    By Blogger Hildur, at 11:55 AM  

  • Elsa mín, ég tek þetta með gluggann ekki til mín ;)

    By Blogger Sigurjón Sveinsson, at 7:00 AM  

Post a Comment

<< Home