Komin í skóla eina ferðina enn!

Wednesday, August 31, 2005

Netleysi

"Sigurjón! Mér líður eins og ég hafi krafsað mig undanfarna daga um sanda Sahara án vatnssopa." Eitthvað á þessa leið var setning mín til sambýlingsins, unnusta og tölvunarfræðingsins í dag þegar netið var LOKSINS tengt á ný á heimilinu. Ég fékk að drekka. Þannig séð. Ah.

Einn af kostunum við að komast á netið á ný er sá að nú get ég séð hvort komnar eru frekari upplýsingar um blessað námið mitt á nemendasvæði HÍ. Jú, mikið rétt. Gylfi búinn að setja langþráð skipulag námskeiða hans inn á Ugluna (nemendavefurinn). Gott hjá karli. Búin að bíða eftir þessu í einhverjar vikur. Takk.

Fór annars á fund með meistaranemum við Viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (Vaðlaheiðarvegavinnuverkfæra...) á mánudaginn var. Fullur salur af fólki. Húmor í kennurum, kaffi, sódavatn, kleinur og kex í kaffihléi og allt orðið mun smartara en ég minnist frá fyrra námi í HÍ. Innritunargjöldin mín fóru í kexið. Eða límmiðana sem voru utan um vatnsflöskur. Háskólavatn, fullt af visku auk sóda. Leist vel á mig. Ætla að reyna að taka þátt í háskólasamfélaginu í vetur, eins og við vorum ítrekuð hvött til að gera á þessum fundi. Nú þegar er búið að boða oss á Megastónleika um næstu helgi. Veit nú ekki með það, en eitt er þó víst. Skólinn hefst á morgun!

Thursday, August 25, 2005

Myllusteinar

Þungu fargi af mér létt. Skólasnótinni. Borgarráð rétt í þessu að ákveða að falla frá hækkunum á daggæslugjöldum/leikskólagjöldum fyrir foreldra þar sem annað er í námi. Já, skál fyrir því. Sparast nokkrar krónur í mánuði enda veitir ekki af. Nóg húrrast maður niður í "tekjum" við skólainnritun. En allt til betri vegar.

Reyndar höfum við það óheyrilega gott, skv. almannaróm, eftir að Sigurjón hóf störf í bankanum. Vegna launaleyndar sem þar ríkir þá halda velflestir að hann sé með slík launin! Gott og vel. Hef ég það eftir einum starfsmanni bankans, nota bene ekki Sigurjóni, að þessi mikla leynd yfir launum þar orsakist af skítalaunum en ekki öfugt. Sel það ekki dýrara.

Wednesday, August 24, 2005

Hrollur

Úff! Ekki laust við að um mann fari.

Var að setja inn skil á verkefnum og prófum á dagatal á nemendasíðunni minni við HÍ. Kennsluáætlanir komnar fyrir tvö fög en þrjú enn ókomin á netið. Finnst nóg um skilafjöld í fögunum tveimur. Hver einasta vika nánast fram að 1. des.

Jæja kerla mín! Nú þýðir ekkert að fokka á netinu lengur.

Svifaseinelsi

Ljótt nýyrði, -svona í morgunsárið. Kerlu finnst nefnilega kennarar námsins sem framundan er ekki vera sérlega snöggir til að birta kennsluáætlanir og annað góss til yfirlits. Vita þessir aðilar ekki að hér er námsþyrstur einstaklingur í gíslingu heimafyrir með kalamín áburð á lofti? Í slíkum aðstæðum þarf að hafa eitthvað áhugavert fyrir augum annað en sífjölgandi hlaupandi bólur á sonarbúk.

Saturday, August 20, 2005

Líður að tíðum...

Rigningin segir meira en mörg orð. Haustið að hellast yfir.

Fyrir ári síðan var nýr kafli að hefjast í lífi okkar í fjölskyldunni. Nýr meðlimur að fara að fæðast. Í dag, þessu ári síðar, er nýmeðlimurinn á leið út í lífið með gamlan leðurbakpoka móður sinnar. Á leið til dagmóður þar sem móðirin sjálf skal í skóla. Enn eina ferðina! Einhver hefði haldið að komið væri nóg. "Bara vel!" -eins og Bríet myndi segja það. En nei, það er víst nauðsynlegt að dæla á sig gráðunum til að haldast inni í samkeppni um djobbin fínu. En aðalástæða þessa heimilis er þó löngun til námsins, enda hlýtur það að vera besta ástæðan. Það eru forréttindi að geta farið í skóla og lært. Ótrúlega gaman líka. Svona oftast. Nema þegar rífa þar tvo úfna hausa uppúr ylvolgum rúmum í vetur, rusla þeim í fötin og út í bíl. Á fastandi maga. Skafa rúður, dúðelsi í barnastólum...hálfsofandi. Æi, hvað er þetta?!? Allt vill lagið hafa.

Er líklega búin að vera "of" lengi heimavinnandi. Eitthvað heimóttaleg orðin! Er alsæl að dúllast í gegnum daginn með dagskrárleysu mér við hlið. En kemur maður ekki meiru í verk undir pressu?